Mótmælendur Saving Iceland í ruglinu!

Skoðið þetta fyrst:  Myndband af Vísir.is

Fyrst talar, að ég held, forsprakki samtakana, Sigurður Harðarson, sem talar eins og ég tala þegar ég er búinn með 6 til 8 bjóra.  Síðan kemur einhver ónafngreindur, erlendur aðili sem talar eins og ég myndi tala eftir 6 til 8 grömm af hassi.  Hann þylur upp einhverja bölvaða þvælu eins og: "Mér finnst það dapurlegt að viðbrögðin séu ætið svo neikvæð að við erum útmáluð sem hryðjuverkamenn eða eitthvað álíka."  Hver hefur útmálað ykkur sem hryðjuverkamenn annar en þú sjálfur?  Lögreglan skiptir sér af ykkur vegna þess að þið eruð að brjóta lög.  Þið eruð beðin um að slökkva á græjunum en neitið því, þið eruð beðin um að tefja ekki umferðina sem mig minnir að sé ólöglegt, þið streitist á móti lögreglu og hafið afskipti af starfi lögreglunnar sem er með öllu óheimilt!  Síðan farið þið í sjónvarpið, annað hvort drukknir eða útúr hassaðir (án þess þó að ég hafi sannanir fyrir því) og segið að þið séuð dæmdir hryðjuverkamenn?!  Hvaða bölvaða vitleysa er þetta eiginlega?

Síðan tala báðir þessir aðilar um að þeir séu náttúruverndarsinnar og vilja vernda náttúru Íslands en þegar litið er á tjaldsvæði þeirra þá er það allt í drasli sem auðveldlega getur fokið burt og skaðað náttúru Íslands.  Væri ekki best að líta í eigin barm, hætta að tala við sjónvarpið fullur og skipuleggja mótmælagöngur eins og mótmælagöngur eiga að ganga fyrir sig!  Ef að þið gerið það, þá treystið mér, lögreglan á ekki eftir að líta við ykkur!

Nú vill ég að þið kíkið á þetta: Myndband af YouTube

Þarna má sjá Saving Iceland, Rave Against The Machine, fyrstu 3 mínúturnar haga sér eins og vitleysingar niðri í bæ.  Ekkert sem ég hef á móti því.  Auðvitað má fólk haga sér eins og því líkar og auðvitað má fólk tjá skoðanir sínar.  En landið er byggt á lögum!  Það þýðir ekkert að láta eins og fífl og brjóta lög á sama tíma.  Eins og Fóstbræður sögðu á sínum tíma; "Það er allt í lagi að vera með fíflagang, svo lengi sem það fer ekki út í sprell!"

- Skoðið fyrir mig mínútu 03:25!  Þar má sjá lögreglumann tjá einhverjum frá Saving Iceland að ef að til eru myndbrot af lögreglumanni að lemja einhvern, að þá megi auðvitað senda það myndbrot til lögreglu og kæra.  Með þessu er sá aðili sem klippti saman þetta myndband að miðla því til þeirra sem skoða það að á næstu mínútum munum við sjá svokallað "Police Brutality" eða eins og stendur í lýsingunni á myndbandinu; "with severe police brutality by Iceladic standards."

Ókei, bíddu bíddu, stoppið upptökuna!!  "By Icelandic standards" ?!?!  Hvaða andskotans þöngulhausar eru þetta eiginlega?  Er það staðlað af íslenskri lögreglu að beita ofbeldi þegar engin þörf er á?  Ekki man ég eftir nema hugsanlega einu tilviki þar sem lögreglan notaði ofbeldi í stöðu sem ofbeldi þurfti ekki að nota og þið eruð að ásaka íslenska lögreglu og segið að þetta sé einhver hefð á Íslandi!  Skammisti ykkar!  Ég er búinn að fá mig full saddan af þessari bölvuðu "Ég þoli ekki yfirvöldin / reynum að skapa múgsefjun" tilgerð!  Finnið ykkur eitthvað annað að gera, í guðanna bænum!

- Ef að þið horfið síðan áfram að mínútu 03:50; Þar má sjá konu með hvítan haus reyna að komast fram hjá lögreglu og inní bíl sem lögreglan var að reyna að tæma.  Með þessu er hún að skipta sér af störfum lögreglu og er það bannað með lögum.  Sá aðili sem setur saman þetta mynband hægir þarna á myndbrotinu og lætur það líta út eins og lögreglumaðurinn hafi slegið til konunnar þegar að hann var greinilega bara fljótur til að grípa hana og ýta henni burt.  Hann kýldi hana ekki, það sér hver sá sem ekki er vel í því eða búinn að reykja aðeins of mikið grasi (sbr. örugglega meirihluti meðlima þessara samtaka).

- Frá mínútu 04:15 og til endaloka myndbandsins má sjá strák með rauðan hjálm skipta sér af starfi lögreglu.  Það má sjá sama strák grípa í lögreglu.  Það eina sem lögreglan gerir er að taka strákinn afsíðis og segja honum að hætta þessu en hann gegnir ekki.  Það má sjá fólk öskra "The whole world is watching" á sama tíma og þau skipta sér af störfum lögreglu og hleypa lögreglu ekki að.  Það má sjá sama aðila og var á hassi í fyrra myndbandinu á jörðinni með lögreglumann ofaná sér eftir að hafa skipt sér af lögreglustörfum, lamið til lögreglu og látið öllu illum látum.  Þegar að þessi aðili er tekinn byrjar einhver pussa að öskra eins og verið sé að nauðga barninu hennar fyrir framan hana.  Það öskrar einhver "Police brutality" og aðrir kalla lögregluna fávita eða þroskahefta.  Einn aðilinn í bakgrunn, sem er greinilega aðeins of uppheftur af múgæsingnum, öskrar "Þetta er líkamsárás" sem greinilega er ekki málið.

Síðan endar þetta myndband þar sem sjá má lögreglu brjóta rúðuna í bílnum og slökkva á honum eftir ítrekaðar tilraunir til þess að fá samtökin til að slökkva á græjunum.

Það sem ég vill að lokum segja er einfaldlega þetta.  Hættið þessu bölvaða rugli!  Ég er kominn með svo mikið ógeð af svona lögreglu ásökunum sem eiga engan veginn rétt á sér að það hálfa væri nóg!  Finnið ykkur eitthvað annað að gera með ykkar dýrmæta líf eða hættið að mótmæla ólöglega!


mbl.is Mótmælendur Saving Iceland loka Snorrabraut
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Gestur Guðmundsson

Mér finnst merkilegt að svona fólk skuli saka lögregluna um lögbrot þegar þessir einstaklingar taka þátt í því að styrkja alþjóðleg glæpa- og hryðjuverkasamtök með kaupum á Hassi og maríújana.

Þetta pakk ættu nú að líta í sinn eigin barm.

Jón Gestur Guðmundsson, 17.7.2007 kl. 17:42

2 identicon

Sæll Magnús.

Ég var staddur í götupartýinu og einn af þeim sem skipulögðu það. Það eru nokkrir hlutir sem ég myndi gjarnan vilja koma á framfæri.

Eins og mjög margir aðrir tengir þú Saving Iceland við eiturlyf. Staðhæfing þín er svona: Síðan farið þið í sjónvarpið, annað hvort drukknir eða útúr hassaðir (án þess þó að ég hafi sannanir fyrir því). Þrátt fyrir setninguna innan svigans skrifar þú að þessir tveir aðilar hafi komið fram í sjónvarpsútsendingu skakkir og drukknir.

Ég staðfesti hér að hvorug staðhæfingin er sönn, en þessi aðferð þín til þess að koma óorði á fólk sem þér líkar ekki við er ekki ný af nálinni. Saving Iceland hefur áður verið tengt við eiturlyf, en alltaf á þennan hátt, þ.e. af fólki sem hefur ekki hundsvit á því sem það er að tala um. Í mótmælabúðum okkar í fyrra geðri lögreglan eiturlyfjaleit í hverju einasta tjaldi (án þess að hafa til þess leyfi) og var að sjálfsögðu fjallað um það í fjölmiðlum. Lögreglan fann ekkert, en það kom aldrei fram í neinni fjölmiðlaumfjöllun og þar með var þessu óorði komið á samtökin.

Þetta fullyrðir þú svo aftur á þennan hátt: það sér hver sá sem ekki er vel í því eða búinn að reykja aðeins of mikið grasi (sbr. örugglega meirihluti meðlima þessara samtaka). Klapp klapp fyrir málefnalegum og upplýstum rökum.

Einu sinni enn ferðu með rangt mál og uppspuna: Það má sjá sama aðila og var á hassi í fyrra myndbandinu ... Það er greinilegt að þú ert vel að þér í þessu.

Ég veit ekki hvaðan þessi ranghugmynd þín kemur, en ég býst við því að hún sé sprottin upp af fordómum þínum, annars vegar vegna útlits einhverja þáttakenda og hins vegar vegna skoðanna þeirra. Það þykir mér afar sorglegt.

Til að leiðrétta annan misskilning er Sigurður Harðarson ekki forsprakki Saving Iceland, heldur aðeins talsmaður í þessu eina tilviki. Hann hefur áður verið talsmaður okkar í aðgerðum, en hann hefur ekkert meira vald innan samtakanna en hver annar. Það enginn forsprakki, engin formaður, í stuttu máli sagt engar stöður.

Saving Iceland eru ekki meðlimasamtök, heldur alþjóðlegt net einstaklinga. Við vinnum eftir kerfi sem byggist á því að enginn er yfir aðra hafinn og ákvarðanir eru teknar með "upplýstu (consensus) samþykki", en sú aðferð er mjög þekkt m.a. hjá samvinnureknum fyrirtækjum. Í stað meirihlutakosninga ræðum við málin þar til sameiginleg niðurstaða fæst. Þannig hefur Saving Iceland starfað frá upphafi og mun gera það áfram. Hverjum sem er er frjálst að taka þátt í starfsemi samtakanna ef sá hinn sami telur skoðanir sínar samræmast skoðunum Saving Iceland.

Við stoppuðum enga umferð þennan dag, heldur hægðum á henni. Það getur verið að það að hægja á umferðinni sé lögbrot, en hver er siðferðislega hliðin á málinu. Grasrótarhreyfingar (social movements) út um allan heim nota aðferðir sem á íslensku kallast beinar aðgerðir. Með þeim er reynt að stokka upp í hinu "hefðbundna samfélagi" til dæmis með því að hægja á umferðinni, sem venjulega fer allt of hratt fram.

Þetta segir þú í grein þinni: Síðan endar þetta myndband þar sem sjá má lögreglu brjóta rúðuna í bílnum og slökkva á honum eftir ítrekaðar tilraunir til þess að fá samtökin til að slökkva á græjunum.

Lögreglan braut ekki rúðuna á bílnum til þess að slökkva á tónlistinni, það hafði þegar verið klippt á snúruna sem tengdi rafmagnskassa bílsins við hljóðkerfið. Gott dæmi um það hvernig fjölmiðlar segja ekki alltaf alla söguna og þar af leiðandi ættu allir að lesa, hlusta og horfa á fjölmiðla með gagnrýnu hugarfari og leyfa sér að efast.

Lögreglan hafði engin samskipti við bílstjórann fyrr en hún handtók hann, hún bað hann aldrei að slökkva á tónlistinni. Þegar hún síðan handtók hann fór það fram á mjög ofbeldisfullan hátt, þrátt fyrir sífellar ábendingar um að hann væri rifbeinsbrotinn. Hann streittist ekki á móti, en þetta segja fjölmiðlar þér heldur ekki.

Hefur þú komið í mótmælabúðirnar? Nei. En samt leyfir þú þér að fullyrða að þar sé allt í drasli og við séum að menga náttúruna. Það sem þú sást í sjónvarpsfréttinni var í fyrsta lagi endurvinnslustöðin okkar, en við flokkum ruslið okkar eins nákvæmt og hægt er, til þess að hafa sem minnst neikvæð áhrif á umhverfið, og í öðru lagi vatnsbrúsar sem við fyllum á til þess að nota við eldamennsku. Hvorugt fýkur út í náttúruna. Það er áhugavert að í sömu frétt er sýnt myndskeið af álverinu í Straumsvík sem er í þeim töluðu orðum að menga andrúmsloftið á beinan hátt. Hver er að menga?

Líttu í eigin barm, athugaðu hvernig þinn lífsstíll gæti haft neikvæð áhrif á umhverfið og svo skaltu byrja að gagnrýna aðra.

Þú hvetur okkur til að mótmæla löglega og það myndum við svo sannarlega gera ef það hefði einhvern árangur. Blaðagreinar og mótmælagöngur með skilti niður Laugarvegin gera sitt, en með þeim aðferðum sem við höfum notað síðustu ár höfum við haft mikil áhrirf á umræðuna um umhverfismál og eyðileggingu þessarar plánetu.

Við höfum hreyft við fólki, bæði glatt það sem og reitt til reiðis, enda búumst við ekki við því að allir hafi sömu skoðanir. Við hreyfðum við þér og fjöla annara.

Ég hvet þig til að kynna þér málin betur, bæði hvað við erum að gera og hvernig þessari plánetu er sífellt stefnt í meiri hættu, áður en þú fullyrðir svona um fólk og hluti án nokkurrar vitneskju.

kv, Snorri Páll Jónsson

Snorri Páll Jónsson (IP-tala skráð) 17.7.2007 kl. 21:36

3 Smámynd: Maggi Trymbill

"Eins og mjög margir aðrir tengir þú Saving Iceland við eiturlyf. Staðhæfing þín er svona: Síðan farið þið í sjónvarpið, annað hvort drukknir eða útúr hassaðir (án þess þó að ég hafi sannanir fyrir því). Þrátt fyrir setninguna innan svigans skrifar þú að þessir tveir aðilar hafi komið fram í sjónvarpsútsendingu skakkir og drukknir.

Ég staðfesti hér að hvorug staðhæfingin er sönn, en þessi aðferð þín til þess að koma óorði á fólk sem þér líkar ekki við er ekki ný af nálinni. Saving Iceland hefur áður verið tengt við eiturlyf, en alltaf á þennan hátt, þ.e. af fólki sem hefur ekki hundsvit á því sem það er að tala um. Í mótmælabúðum okkar í fyrra geðri lögreglan eiturlyfjaleit í hverju einasta tjaldi (án þess að hafa til þess leyfi) og var að sjálfsögðu fjallað um það í fjölmiðlum. Lögreglan fann ekkert, en það kom aldrei fram í neinni fjölmiðlaumfjöllun og þar með var þessu óorði komið á samtökin.

Þetta fullyrðir þú svo aftur á þennan hátt: það sér hver sá sem ekki er vel í því eða búinn að reykja aðeins of mikið grasi (sbr. örugglega meirihluti meðlima þessara samtaka). Klapp klapp fyrir málefnalegum og upplýstum rökum.

Einu sinni enn ferðu með rangt mál og uppspuna: Það má sjá sama aðila og var á hassi í fyrra myndbandinu ... Það er greinilegt að þú ert vel að þér í þessu."

Við þessu vil ég segja: Ef að ég væri fréttamaður, að skrifa frétt fyrir Morgunblaðið, þá myndi ég auðvitað ekki segja eitthvað því um líkt. Ég nota einfaldlega þennan "tón" til þess að leggja áherslu á með hverjum ég stend (með lögreglu gegn Saving Iceland). Ég sagði aldrei "Ég veit að þessi samtök nota eyturlyf...ojjj, þau eru ógeðsleg" - Ég leyfi öðrum að sjá um það.

"Ég veit ekki hvaðan þessi ranghugmynd þín kemur, en ég býst við því að hún sé sprottin upp af fordómum þínum, annars vegar vegna útlits einhverja þáttakenda og hins vegar vegna skoðanna þeirra. Það þykir mér afar sorglegt."

Þetta er að öllu leiti rangt. Ég hef enga fordóma gegn fólki sem vill koma skoðunum sínum á frammfæri. Ég hef enga fordóma gegn útliti fólks, á einn eða annan hátt og þykir mér það illa upprætt fásinna að þú skulir voga þér að kenna mig við fordóma. Hvernig geta fordómar sprottið upp af skoðunum einhvers? "Þér finnst súkkulaði ís vondur...ég fordæmi þig!" - Ég sé það ekki gerast...og já, til að hafa það á hreinu, þá var ég ekki að segja að Saving Iceland samtökin þættu súkkulaði ís vondur, ég tók bara svona til orða.

"Hefur þú komið í mótmælabúðirnar? Nei. En samt leyfir þú þér að fullyrða að þar sé allt í drasli og við séum að menga náttúruna. Það sem þú sást í sjónvarpsfréttinni var í fyrsta lagi endurvinnslustöðin okkar, en við flokkum ruslið okkar eins nákvæmt og hægt er, til þess að hafa sem minnst neikvæð áhrif á umhverfið, og í öðru lagi vatnsbrúsar sem við fyllum á til þess að nota við eldamennsku. Hvorugt fýkur út í náttúruna. Það er áhugavert að í sömu frétt er sýnt myndskeið af álverinu í Straumsvík sem er í þeim töluðu orðum að menga andrúmsloftið á beinan hátt. Hver er að menga?"

Ég afsaka þennan misskilning á minni hlið. Ég hafði svosem enga ástæðu til þess að benda á eitthvað eins og að það væri rusl þarna en mér leist bara ekki vel á umgang búðanna, hvort sem þú kallar þetta "Endurvinnslustöð" eða ekki.

"Þú hvetur okkur til að mótmæla löglega og það myndum við svo sannarlega gera ef það hefði einhvern árangur."

Þarna hittir þú nagglan á rangt höfuð! Þú ert s.s. að segja að þið gerið í því að mótmæla ólöglega vegna þess að mótmæli á löglegan máta ber ekki árangur. Þarna liggur pottur brotinn að mínu mati. Afhverju geta samtökin Saving Iceland ekki mótmælt eins og önnur samtök? Ætti þá s.s. að þínu mati að setja í stjórnarskránna "Ef að samtök mótmæla, þá mega þau brjóta hvaða lög sem er"?? Hvaða bull er þetta eiginlega í ykkur? Það er ekkert í lagi að brjóta lög hvort sem þið eruð að mótmæla nauðgunum, morðum, stríðum eða ÁLVERUM! Ég tel þá skoðun siðferðisblindu á háu stigi!

Sko, ég skil svosem alveg ykkar ástæðu. Ég skil vel að heimurinn fer versnandi og að mannkynið sem slíkt er ekki að gera allt sem það getur til að vernda náttúruna, en trúðu mér, heimurinn væri þó nokkuð verri ef að hann væri uppfullur af tilgerðarlegum "Mér finnst löggan ekki töff" þorskum sem hlíða ekki lögum og reglum sem landið er byggt á.

En ég þakka þér þó kærlega fyrir að leiðrétta mig og segja mér til synda minna. Það sem að ég tel mig hafa lært af þessu um samtökin Saving Iceland er:

- Þið setjið myndband á YouTube með lýsingunni "with severe police brutality by Icelandic standards" þó svo að þetta ofnotaða "police brutality" orðasamband sé hvergi sjáanlegt.

- Þið hunsið og hlíðið ekki tilmælum lögreglu og brjótið lög af ásettu ráði án þess að blikka auga af þeirri einföldu ástæðu að ykkur finnst það bera meiri árangur en löglega aðferðin.

- Þið úthrópið lögreglumenn og konur sem ofbeldisseggi, þegar þeir eru greinilega einungis að sinna starfi sínu.

- Þið hægið á og nánast lokið helstu neyðarleið lögreglu, slökkviliðs og sjúkrabíla. Það hefði t.d. verið hressandi ef að sjúkrabíll hefði þurft að fara þarna í gegn með ykkur öskrandi, hoppandi, blótandi og skapandi vesen og áróður uppúr engu.

- Ykkar samtök innihalda, eða hafa "aðdáendur" innanborðs, sem þola ekki yfirvöld fyrir það eitt að vera yfirvöld. Þið eruð með "Þetta er líkamsárás" gaur sem greinilega hefur ekki kynnt sér skilgreininguna á "líkamsárás" í orðabókinni sinni. Þið eruð með "Ahhhhhh" stelpurnar sem öskra bara afþví að þeim finnst svo gaman að vera svona ruglaðar.

- Þið segist ekki nota eiturlyf og viljið ekki láta bendla ykkur við þau.

Endilega leiðréttu mig, ef að eitthvað af þessu er ekki rétt.

Maggi Trymbill, 17.7.2007 kl. 23:49

4 identicon

Eitt verð ég nú að segja að þessi upprunalegi póstur þinn er ekkert sérlega vandaður.

Í fyrsta lagi er ekki verið að segja að lögregluofbeldi sé algengt hér á landi með orðunum "with severe police brutality by Iceladic standards." heldur er verið að segja að þarna hafi verið alvarlegra ofbeldi frá lögreglu en þú finnur alla jafna á Íslandi. Hvernig þú ferð að því að túlka það sem að einhver er að segja að lögreglu
ofbeldi er venjan hér skil ég ekki.

Einnig skil ég ekki hvernig þú getur ekki séð þá fordóma sem streyma úr þessum pósti þínum alveg eins og þeir mótmælendur bera fordóma gegn lögum og ríki í sinni núverandi mynd. Ég er nokkuð viss um að allir aðilar tengdir þessu myndu mótmæla því en engu að síður þá þyrfti nokkuð sterk rök til að andmæla þessu.

Einnig má taka eftir því, þó svo að þú segist ekki hafa neinar sannanir fyrir því, að þú ítrekað ásakar aðila um að vera undir áhrifum eiturlyfja. Þetta þykja mér ekki góð skrif, hvort sem þú er að reyna leggja áherslu á orð þín eður ei.

Annars nenni ég ekki að tjá mig frekar um þessi mál. Það hefur engin rétt fyrir sér í þeim.

Sigurhjörtur (IP-tala skráð) 18.7.2007 kl. 12:36

5 Smámynd: Maggi Trymbill

Sigurhjörtur, það er gaman að sjá að upprunalega vefsíða mín er ekki sú eina sem mislíkar vafrann Opera.

Einnig þykir mér skemmtilegt hjá þér að taka tilmæli Kára Sigurðssonar (eins og sjá má hér) og breyta þeim í þín eigin.  Ég las úr þessu "Með alvarlegum lögreglu 'brútalíseringum' eftir íslenskum stöðlum" og geri ég mér grein fyrir nú að um er að ræða "miðað við íslenska 'standarda'" en ekki "eftir íslenskum 'stöndördum'" og þykir mér miður að þú teljir þig þurfa að nudda salti í sárið eins og hér að ofan.

Þriðja málsgrein þín þykir mér erfitt að skilja.  Oft er gott að venja sig á að nefna þá hluti sem þú ræðir um í staðin fyrir að segja bara "þessu","þetta" og "því" og gæti ég þá hugsanlega skilið um hvað þú talar.  En sé ég ekki þá fordóma sem streyma úr þessum pósti mínum?  Jú, hugsanlega upp að vissu marki, en fordómar gegn útliti fólks vil ég ekki vera kenndur við.  Fordómar gegn skoðunum fólks kallast öðru nafni "Að hafa sína eigin skoðun á málunum" og fellur sá flokkur ekki undir fordóma hjá mér, því miður fyrir þínar sakir.

Síðan ættir þú að vita það hvað manna best Sigurhjörtur, eftir að hafa lesið mjög líklega meiri hluta þeirra blogga sem ég hef skrifað til þessa, að mér þykir skemmtilegt að ýkja stundum örlítið, bæði til þess að kveikja í fólki og til þess að vekja frekari umræðu.  Eins og ég segi hér að ofan, þá myndi ég ekki gera þetta ef ég væri fréttamaður, eða ef ég talaði fyrir einhverjum flokki, samtökum eða hóp.  Ekki misskilja áróður minn, hann er til þess eins (oftar en ekki) að hrista upp í hlutunum. 

Maggi Trymbill, 18.7.2007 kl. 21:38

6 identicon

Þótt þið séuð fullkomlega edrú, þá gerir það vitleysisganginn sem þið hafið staðið fyrir ekki skiljanlegri. Ég veit ekki hvernig ykkur dettur í hug að hoppa um í grímubúningum, brjóta lög t.d. með því að tefja umferð og halda að það skili einhverju. Þið svertið málstað hinna sönnu náttúruverndarsinna; þeirra sem hafa þroska og dómgreind til að mótmæla eins og menn, ekki bjánar. Hafið þið fordóma gegn lögum og reglu hér? Hvernig?

Friðrik Árni Friðriksson (IP-tala skráð) 19.7.2007 kl. 02:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband